Sérfræðingar norræna bankans Nordea segja, að útgáfa einskonar evruskuldabréfa, sameiginlegra skuldabréfa aðildarríkja evrusvæðisins, gæti leyst skuldavandann, sem hrjáir mörg Evrópuríki.
„Það gæti verið það stjórntæki, sem evrópskir þjóðarleiðtogar hafa leitað að til að leysa skuldavandann," skrifar Jan Størup Nielsen, aðalhagfræðingur Nordea, í nýrri skýrslu.
Nielsen segir, að Jean-Claude Juncker, forsætisráðherra Lúxemborgar, og og Giulio Tremont, fjármálaráðherra Ítalíu, hafi sett hugmyndina fram í desember í fyrra og nú sé verið að skoða þetta alvarlega í Þýskalandi.
Hugmyndin er, að E-skuldabréfin verði gefin út af sameiginlegri evrópskri stofnun, European Debt Agency, (EDA) og þessi stofnun fjármagni allt að helming opinberra skulda evruríkjanna. Stofnunin geti í ákveðnum tilfellum fjármagnað allar skuldirnar.
„Það myndi senda skýr boð til alþjóðlegra markaða og evrópskra kjósenda um pólitískan vilja á bak við efnahags- og myntsamstarfið og það að evran verði varin," segir Størup Nielsen, að því er kemur fram á vef Jyllands-Posten.
Hann segir að E-skuldabréfin séu engin töfralausn og finna þurfi pólitískar lausnir á þeim vandamálum, sem gríðarlegur fjárlagahalli, lítill hagvöxtur og kerfislæg vandamál í mörgum löndum skapi.
En skuldabréfin geti stöðvað hrunið og skapað svigrúm til nauðsynlegra umbóta.