Tveir aðstoðarbankastjórar tékkneska seðlabankans skrifa lesendabréf í breska viðskiptablaðið Financial Times í dag þar sem þeir segja hættu á, að ný Icesave-mál komi upp innan evrópska bankakerfisins.
Þeir Mojmír Hampl og Vladimír Tomšík gagnrýna í greininni álagspróf, sem lögð eru fyrir banka innan Evrópusambandsins. Segja bankastjórarnir að prófin meti styrk bankasamsteypa en ekki styrk einstakra banka innan þeirra.
Þeir vísa til Icesave-málsins þar sem sparifjáreigendur í Bretlandi og Hollandi hafi stofnað innlánsreikninga í útibúi íslensks banka samkvæmt reglum um innri markað Evrópusambandsins. Fáa virðist hafa grunað að Ísland en ekki heimalönd þeirra hafi átt að ábyrgjast innlánin ef allt færi á versta veg. Þegar síðan kom í ljós að Ísland gat ekki eða vildi ekki borga hafi heimaríkin gert það af pólitískum ástæðum en ekki samkvæmt Evrópureglum.
Þeir Hampl og Tomšík segja síðan, að frjálsir fjármagnsflutningar milli banka innan sömu fjármálasamsteypu geti endað með ósköpum. Þannig geti sparifjáreigendur í einu ríki komist að raun um, að þegar illa árar séu innlán þeirra ekki tryggð með nægum eignum eða lausafé vegna þess að þessar eignir hafi verið notaðar til að aðstoða móðurbankann eða aðra banka innan samsteypunnar.
Þetta skapi hættu á að mörg mál á borð við Icesave-málið komi upp þar sem skattgreiðendur í einu landi þurfi að bjarga löndum sínum framhjá Evrópureglum.