Leiðtogar evru-ríkjanna hafa komist að samkomulagi um nýja neyðarstoð fyrir gríska ríkið. Alls hljóðar björgunarpakkinn upp á 159 milljarða evra. Í fyrra var samþykkt að veita Grikkjum neyðaraðstoð upp á 110 milljarða evra.
Jean-Claude Trichet, bankastjóri Seðlabanka Evrópu, fagnar því að náðst hafi sátt um málið en leiðtogarnir hafa setið á fundi í Brussel í allan dag vegna þess.
Í samkomulaginu fellst meðal annars endurskipulagning skulda ríkissjóðs Grikklands og stækkun björgunarsjóðs Evrópusambandsins. Að sögn forseta Frakklands, Nicolas Sarkozy, munu einkareknar fjármálastofnanir taka þátt í björgunaraðgerðunum og er þetta í fyrsta skipti sem þær taka þátt í neyðaraðstoð sem þessari í Evrópu.
Trichet sagði á fréttamannafundi í kvöld að hann sé mjög ánægður með að evru-ríkin hafi komist að samkomulagi um hvernig eigi að stuðla að stöðugleika á evru-svæðinu.
Leiðtogar evru-ríkjanna samþykktu á fundinum björgunarpakka upp á 159 milljarða evra til Grikklands og verður þannig komist hjá því að Grikkland fari í þrot. Vonast er til þess að þetta komi í veg fyrir að skuldavandi Grikkja breiðist enn frekar út um Evrópu.
Herman Van Rompuy segir að bæði Evrópusambandið og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn komi að aðstoðinni. Einkafjármálafyrirtæki munu veita Grikkjum lán upp á 50 milljarða evra en 109 milljónir evra koma frá ríkjum ESB og AGS, samkvæmt samkomulaginu sem kynnt var fyrir fjölmiðlafólki í kvöld. Lánið verður á afar lágum vöxtum.
Forsætisráðherra Grikklands, George Papandreou, fagnaði niðurstöðu fundarins og sagði þetta mikinn létti fyrir Grikki sem eru að sligast undan skuldabyrðinni. Skuldir ríkissjóðs nema um 350 milljörðum evra.
Hann segir að með neyðarláninu geti gríska ríkið minnkað skuldir hins opinbera um 26 milljarða evra fyrir árslok 2014.
Til þess að auðvelda Grikkjum að endurgreiða neyðarlánin er lánstíminn lengdur úr 7,5 ári í þrjátíu ár í einhverjum tilvikum og verða vextirnir 3,5%.
Á síðasta ári fengu Grikkir greidda út 110 milljarða evra úr neyðarsjóðum ESB og AGS. Síðan þá hafa bæði Portúgalar og Írar þurft á neyðaraðstoð að halda frá ESB og AGS.