Bandarískir bankar og peningamarkaðssjóðir hafa mikla óbeina hagsmuni tengda efnahagserfiðleikunum í Evrópusambandinu samkvæmt því sem segir í skýrslu á vegum stjórnvalda í Bandaríkjunum sem gefin var út í dag.
Fram kemur í skýrslunni að bankar í Bandaríkjunum hafi ekki mikla beina hagsmuni í því sambandi þar sem þeir eigi lítið af skuldabréfum evruríkja sem átt hafi í erfiðleikum eins og Grikklands, Portúgals og Írlands.
Hins vegar hafi þeir mikilla hagsmuna að gæta gagnvart stórum evrópskum fjármálastofnunum sem aftur eigi mikið af skuldabréfum gefnum út af þessum ríkjum. Einkum er þar um að ræða stóra banka í Bretlandi, Frakklandi og Þýskalandi.