Spænski sparisjóðabankinn Bankia ætlar að nota lánið sem Real Madrid tók til að festa kaup á Cristiano Ronaldo og Kaká sem veð til að tryggja sér lausafé frá Seðlabanka Evrópu. Ekki er þó hætta á að leikmennirnir endi sem eign bankans.
Það var sparisjóðurinn Caja Madrid sem veitti Real Madrid lán upp á 76,5 milljónir evra í lok júní 2009 til þess að festa kaup á stórstjörnunum tveimur. Caja Madrid er stærsti hluthafinn í Bankia sem sjö spænskir sparisjóðir standa að. Spænska blaðið El País segir frá þessu á vefsíðu sinni.
Lánið sem Caja Madrid veitti Real Madrid er nú eitt þeirra veða sem Bankia gefur upp til að tryggja sér allt að 772 milljónir evra í lausafé frá Seðlabanka Evrópu.
Aðdáendur Real Madrid og leikmannanna tveggja þurfa þó ekki að örvænta. Liðið setti sjónvarpsréttarsamninga sína sem veð fyrir láninu sem fjármagnaði hluta kaupverðsins á Ronaldo og Kaká. Seðlabanki Evrópu gæti því ekki gengið að knattspyrnuhetjunum ef allt færi á versta veg hjá Bankia.