Framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, Christine Lagarde, varaði við því í kvöld að ef ekki tekst að leysa deiluna á Bandaríkjaþingi um skuldaþak ríkissjóðs geti staða Bandaríkjadals, sem helsta gjaldmiðils heims, verið í hættu.
Segir hún að hætta sé á að dalur veikist gagnvart öðrum gjaldmiðlum og eins veikist staða hans í huga fólks.
Þingmaður demókrata, John Kerry, lýsti einnig yfir áhyggjum sínum í kvöld um hvaða áhrif deilurnar kunni að hafa á efnahag heimsins.
„Ég get ekki lagt nægjanlega áherslu á hversu alvarleg áhrifin kunna að vera á heimsvísu," sagði Kerry við fréttamenn í kvöld. Hann segist heyra í fólki alls staðar að í heiminum sem er órólegt yfir stöðu mála í Bandaríkjunum.
Kerry átti fund með fjármálaráðherra Grikklands, Evangelos Venizelos, fyrr í vikunni sem hefur áhyggjur af því hvaða áhrif greiðslufall Bandaríkjanna hefur á stöðu mála í Grikklandi. „Ástandið á Spáni og Ítalíu er afar viðkvæmt núna og þeir horfa til okkar," sagði Kerry við fréttamenn í kvöld.