Verð á hráolíu lækkaði á heimsmarkaði í dag en fjárfestum líst ekkert á stöðu mála í Bandaríkjunum þar sem hagvöxtur er ekki samkvæmt væntingum og enn ríkir fullkomin óvissa um hvort þingmenn nái samkomulagi um að hækka svonefnt skuldaþak bandaríska ríkisins.
Nýjar hagtölur í dag sýndu, að bandaríska hagkerfið óx um 1,3% á öðrum fjórðungi ársins en landsframleiðslan var nánast óbreytt á fyrsta fjórðungi miðað við fjórðunginn á undan.
Þá ríkir óvissa um hvort Bandaríkjaþingi tekst að ná samkomulagi um að hækka skuldaþak ríkisins fyrir 2. ágúst en takist það ekki blasir greiðslufall við bandaríska ríkinu.
Verð á hráolíutunnu lækkaði um 1,74 dali á markaði í New York og er 95,70 dalir. Brent Norðursjávarolía, lækkaði um 62 sent á markaði í Lundúnum og var verðið 116,74 dalir.