Stjórn Vátryggingafélags Íslands hefur gengið frá ráðningu Sigrúnar Rögnu Ólafsdóttur, framkvæmdastjóra fjármálasviðs hjá Íslandsbanka, í starf forstjóra VÍS og Lífís.
Sigrún Ragna hóf störf hjá Íslandsbanka við stofnun hans í október 2008 er hún var ráðin framkvæmdastjóri fjármálasviðs og tók sæti í framkvæmdastjórn. Sigrún starfaði hjá Glitni Banka frá því síðla árs 2007 þar sem hún leiddi fjárhagssvið bankans.
Hún starfaði um árabil hjá Deloitte hf. þar sem hún var meðal annars stjórnarformaður og einn eigenda. Sigrún Ragna er með víðtæka stjórnunar- og sérfræðireynslu og hefur unnið með fyrirtækjum úr flestum atvinnugreinum. Hún mun hefja störf hjá VÍS 1. september næstkomandi.
„Við erum mjög ánægð með að hafa fengið Sigrúnu Rögnu til liðs við okkur og hlökkum til samstarfsins við hana. Hún hefur umfangsmikla reynslu á íslenskum fjármálamarkaði og mun koma inn í öflugan hóp stjórnenda félagsins“ segir Axel Gíslason, stjórnarformaður VÍS, í tilkynningu.
Sigrún Ragna er 47 ára gömul, gift Eiríki Jónssyni, skrifstofustjóra hjá Endurvinnslunni hf. og eiga þau tvo drengi. Hún lauk cand.oecon prófi af endurskoðunarsviði frá Háskóla Íslands árið 1987 og löggildingu sem endurskoðandi árið 1990. Sigrún lauk MBA prófi frá Háskólanum í Reykjavík árið 2007.