Slitastjórn Kaupþings á ekki von á að fá stóran hluta af þeim upphæðum sem fyrrum starfsmenn bankans tóku að láni til hlutabréfakaupa í bankanum. Um 50 manns hafa samið um endurgreiðslur og fara þær eftir aðstæðum hvers og eins.
Meirihluti þeirra fyrrverandi starfsmanna Kaupþings sem tók lán til hlutabréfakaupa í bankanum hefur samið við slitastjórn bankans um greiðslur vegna lánanna. Til stóð að þeir myndu sleppa undan þessum persónulegu ábyrgðum.
Slitastjórn Kaupþings rifti þeirri ákvörðun stjórnar bankans frá því rétt fyrir hrun um að fella niður þessar ábyrgðir. Höfðuð voru 60 dómsmál til að fá staðfestingu dómstóla á riftuninni.
Í héraðsdómi hafa fjórir dómar staðfest riftunina, en tveimur þeirra hefur verið áfrýjað til Hæstaréttar.
Að sögn Feldísar Lilju Óskarsdóttur í slitastjórn Kaupþings, er um 50 starfsmenn að ræða, sem hafa gengið frá skuldum sínum með þessum hætti, en talsvert fleiri starfsmenn tóku þessi lán. Sumir þeirra hafa gert upp sín mál, en aðrir eiga eftir að semja. „Þetta eru starfsmenn af ýmsum sviðum Kaupþings,“ segir Feldís Lilja. „Líka æðstu stjórnendur.“
Alls nema riftunarkröfurnar um 15 milljörðum króna. Feldís Lilja segir slitastjórnina ekki búast við að fá mikinn hluta þess til baka. „Við búumst ekki við að fá stóran hluta, við höfum ekki gert áætlun um hversu mikið við fáum. Það er samið við hvern og einn, það fer eftir núverandi aðstæðum fólks, hversu mikið það getur greitt.“
Víðtækar innheimtuaðgerðir eru hafnar gegn þeim sem ekki eru tilbúnir að semja, meðal annars kyrrsetningar á ýmsum eignum.