Olli Rehn, sem fer með efnahagsmál hjá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, telur að bæta þurfi í björgunarsjóð Evrópusambandsins vegna skuldastöðu evru-ríkjanna. Hann telur hins vegar að ekki þurfi að koma Ítalíu og Spáni til bjargar.
Rehn segist ekki trúa því að þessi tvö lönd þurfi á neyðaraðstoð að halda. Með þessu reynir hann að róa markaði vegna ótta fjárfesta um að Spánn og Ítalía, sem eru í þriðja og fjórða sæti meðal Evrópuríkja hvað stærð hagkerfa varðar, séu á sömu leið og Grikkland, Írland og Portúgal.
Rehn vill ekki gefa upp neinar tölur á þessu stigi hvað varðar neyðarsjóði ESB en um 440 milljarðar evra eru í sjóðnum, European Financial Stability Facility.