Ekkert lát er á lækkunum á hlutabréfamörkuðum. Þegar viðskipti hófust í evrópskum kauphöllum klukkan sjö í morgun lækkuðu allar helstu hlutabréfavísitölur hressilega. Í Asíu lækkuðu hlutabréfamarkaðir einnig mjög mikið. Má þar nefna að Nikkei hlutabréfavísitalan lækkaði um 3,72%.
Í Mílanó hefur hlutabréfavísitalan lækkað um 3,5%, Madríd 2,4, París um 3,07% og í Lundúnum hefur FTSE vísitalan lækkað um 2,51%. Í Frankfurt hefur DAX vísitalan lækkað um 3,5% en fastlega má búast við því að heldur dragi úr lækkunum þegar líður á morguninn.
Í Rússlandi hafa báðar helstu hlutabréfavísitölurnar lækkað mikið í morgun. MICEX hefur lækkað um 3,09% og á RTS markaðnum nemur lækkunin 3,86%.
Við upphaf viðskipta hefur álag á ríkisskuldabréf Spánar og Ítalíu haldist áfram hátt.