Fjárfestar óttast að hlutabréfaverð eigi eftir að lækka verulega á morgun þegar viðskipti hefjast að nýju í kauphöllum eftir helgarfrí. Ástæðan er ákvörðun matsfyrirtækisins S&P að lækka lánshæfismat Bandaríkjanna í fyrsta skipti í sögunni og skuldakreppa evruríkja.
Stutt er í að kauphallir í Asíu verði opnaðar en þær gefa tóninn um hvað gerist í Evrópu og Bandaríkjunum. Kauphallir í Mið-Austurlöndum hafa verið opnar um helgina og þar hafa hlutabréf fallið í verði. Hlutabréf í Sádi-Arabíu hafa fallið um 6%, í Ísrael um 7% og í Egyptalandi um 4%.
Stjórnendur Evrópska seðlabankans ætla í dag að halda neyðarfund þar sem m.a. á að ræða hvort bankinn eigi að kaupa ítölsk skuldabréf, en efnahagslíf Ítalíu er veikt og margir óttast að það stefni í sömu átt og efnahagslíf Grikklands og Írlands. Robert Preston, ritstjóri viðskiptafrétta á BBC, segir að ekki sé samstaða meðal Evrópuríkja um hvað eigi að gera.
Preston segir menn óttast að ef leiðtogar Evrópu og Bandaríkjanna leggi ekki eitthvað nýtt fram til að róa markaði áður en kauphallir verði opnaðar verði verðfallið enn meira en í kauphöllum í Mið-Austurlöndum.