Bankastjóri Seðlabanka Evrópu, Jean-Claude Trichet, hvetur allar ríkisstjórnir ríkja á evrusvæðinu, einkum og sér í lagi á Spáni og Ítalíu, til þess að gera skyldu sína. Að draga úr halla hins opinbera og koma á stöðugleika.
„Við væntum þess að ríkisstjórnir geri það sem við teljum að sé þeirra starf," sagði Trichet í viðtali við Europe 1.
Hann segir að bankinn hafi komið sjónarmiðum sínum á framfæri við ítölsk stjórnvöld með skýrum hætti og hvatt þau til þess að taka ýmsar ákvarðanir þar að lútandi undanfarna daga. Það hefur verið gert auk þess sem stefnan er tekin á að skila raunhæfum fjárlögum, ef marka má orð Silvio Berlusconi, forsætisráðherra í síðustu viku. Hið sama hafi verið gert í viðræðum við spænsk yfirvöld.
Trichet segir að ríkisstjórnir evru-ríkjanna sautján hafi verið beðnar um að flýta aðgerðum til þess að standa við þær ákvarðanir sem teknar voru á fundi fjármálaráðherra í Brussel þann 21. júlí sl. Þar var ákveðið að auka aðstoð við Grikkland um 109 milljarða evra.