Bankar leiða fallið á evrópskum og bandarískum hlutabréfamörkuðum í dag en meðal annars lækkuðu hlutabréf franska bankans Sociéte General um rúm 20% um tíma. Þegar viðskiptum lauk í kauphöllinni í París nam lækkun CAC vísitölunnar 5,45%. Ekkert félag hækkaði en SocGen lækkaði mest eða um tæp 15%.
Í Madríd lækkaði hlutabréfavísitalan um 5,49% og hefur ekki verið lægri síðan 1. apríl 2009. Í Mílanó lækkaði aðalvísitalan um 6,65%.
Í Lundúnum lækkaði FTSE-100 vísitalan um 3,05% og í Frankfurt lækkaði DAX vísitalan um 5,13%. Í Sviss lækkuðu hlutabréf um 4,12%.Dow Jones vísitalan í Bandaríkjunum hefur lækkað um 4,11% en þar hafa hlutabréf banka lækkað mikið. Meðal annars hefur Bank of America lækkað um 11,1% og Citigroup um 9,8%. Wells Fargo hefur lækkað um 7,3%, Goldman Sachs um 8,1% og Morgan Stanley um 8,4%.