Olíufélagið N1 tapaði tæpum tólf milljörðum í fyrra. Þetta kemur fram í ársreikningi fyrirtækisins, sem birtur er á vefsíðu þess.
Þar segir að tap ársins í fyrra hafi verið 11.824.266 þúsund krónur. Til samanburðar var hagnaður ársins á undan rúmar 277 milljónir.
Fram kemur að árslaun Hermanns Guðmundssonar forstjóra fyrirtækisins voru tæpar 32 milljónir króna, eða rúmar 2,6 milljónir á mánuði. Einar Sveinsson, stjórnarformaður fyrirtækisins var með 4,8 milljónir í árslaun frá fyrirtækinu og aðrir stjórnarmenn fengu 2,4 milljónir.
Rekstrartekjur ársins 2010 námu tæpum 46 milljörðum króna og jukust um 6 milljarða frá fyrra ári.
Eignir fyrirtækisins rýrnuðu verulega á milli ára fóru úr 25,3 milljörðum árið 2009 og niður í tæpa 17 milljarða í fyrra.