Nauðsynlegt er að afnema gjaldeyrishöft sem fyrst, að mati Árna Haukssonar og Hallbjarnar Karlssonar, sem fara fyrir nýjum eigendahópi Haga. Í ítarlegu viðtali við þá í Viðskiptablaði Morgunblaðsins segja þeir meðal annars að á meðan menn viti ekki hver raunveruleg staða krónunnar er sé ekki hægt að fara í rétta átt til að laga það sem laga þarf í hagkerfinu.
Hallbjörn segir að hægt hafi gengið hjá stjórnvöldum að lífga við efnahagslífið í landinu eftir bankahrun. „Ég hef þó alltaf verið þeirrar skoðunar að best sé að taka höggið sem fyrst. Það er, að hreinsa út hluti sem eru í ólagi og ekki púkka upp á hluti sem þarf að hreinsa út.“ Hann segir að erfitt sé að sjá hvernig eigi að þoka málum áfram meðan gjaldeyrishöft eru fyrir hendi.
Árni bætir því við að enginn viti í raun gengi krónunnar. „Ég get lofað þér því að evran er ekki 164 krónur eins og gengisskráning Seðlabankans segir til um. Hún er miklu hærri.“
Hann segir höftin brengla allt. „Menn halda að verðbólgan sé 4-5%, hún er í raun miklu hærri.“ Hann segir að ríkið sé að borga mun lægri vexti en ríki, sem hann segir að séu í sambærilegri stöðu og Ísland, t.d. Grikkland og Írland. „Ríkið er því að fjármagna sig alltof ódýrt. Því er að eiga sér stað færsla á fjármagni frá þeim sem eiga einhvern aur, til dæmis lífeyrissjóðir, til ríkisins, sem notar peningana til að fjármagna gegndarlausan hallarekstur.“
Þeir Árni og Hallbjörn eiga félagið Hagamel ehf. sem á um fjórðung í félaginu Búvöllum, en síðarnefnda félagið keypti stóran hlut í Högum. Meðal annarra eigenda eru lífeyrissjóðir. Til stendur að skrá Haga á markað og segist Árni vonast til að staðið verði að skráningunni þannig að sem flestir geti tekið þátt.