Fjárfestar sem stunda langtímafjárfestingar eru farnir að flytja fjármuni sína frá bönkum á evrusvæðinu og úr ríkisskuldabréfum evruríkja. Ástæðan eru áhyggjur af því að evrópska myntbandalagið búi hvorki yfir nauðsynlegri pólitískri samhæfingu né efnahagslegum styrk til þess að koma í veg fyrir að efnahagskreppa í líkingu við þá sem varð árið 2008 endurtaki sig. Fréttaveitan Reuters greindi frá þessu í gær.
Þrátt fyrir að ein efnahagsstjórn sé ekki enn raunin á evrusvæðinu eru fjárfestar farnir að líta svo á að evruríkin séu efnahagslega ábyrg fyrir skuldum hvers annars í ljósi þeirra aðgerða sem gripið hefur verið til af hálfu Evrópusambandsins vegna evruríkja sem glímt hafa við alvarlegan og vaxandi efnahagsvanda.
Fjárfestar hafa í staðinn leitað í auknum mæli til ríkja sem búa við meira frelsi til þess að vinna sig út úr efnahagskreppunni eins og Sviss, Bretlands, Bandaríkjanna og Skandinavíu.