Forseti Evrópusambandsins, Herman Van Rompuy, segir áætlun ríkisstjórnar Ítalíu um stórfelldan niðurskurð í ríkisfjármálum gríðarlega mikilvæga fyrir allt evru-svæðið.
Van Rompuy segist styðja aðgerðir Ítala en hann ræddi við Silvio Berlusconi, forsætisráðherra Ítalíu í morgun.
Berlusconi ræddi í gær við kanslara Þýskalands, Angelu Merkel, og bankastjóra Seðlabanka Evrópu, Jean-Claude Trichet, sem bæði styðja aðgerðirnar. Hann mun síðar í dag ræða við forseta Frakklands, Nicolas Sarkozy og fara yfir áætlunina.
Ríkisstjórn Ítalíu samþykkti á fundi sínum á föstudag áætlun sem hljóðar upp á 45,5 milljarða evra niðurskurð á árunum 2012 og 2013. Þetta þýðir að jafnvægi á að nást í ríkisfjármálum Ítalíu ári fyrr en áætlað var. Meðal annars verða skattar hækkaðir hjá hálaunafólki og skorið niður hjá héraðsstjórnum.