Milljarðamæringurinn og fjárfestirinn Warren Buffett hvatti Bandaríkjaþing til þess að samþykkja hærri skatta á bandaríska milljarðamæringa svo draga megi úr skuldasöfnun ríkissjóðs.
Í aðsendri grein sem Buffett skrifar í New York Times í dag leggur Buffett til að skattar á Bandaríkjamenn sem eru með að minnsta kosti eina milljón Bandaríkjadala, 115 milljónir króna, í árslaun verði hækkaðir. Enn hærri skattar yrðu síðan lagðir á þá sem eru með 10 milljónir dala eða meira í árstekjur.
Buffet segir í greininni að leiðtogar landsins hafi beðið alla um að leggja aukalega á sig. En þegar þeir hafi lagt fram ósk sína hafi hann kannað hjá ofurefnuðum vinum sínum hvaða aukaálögur þeir þyrftu að taka á sig. En hvorki þeir né hann hafi þurft að leggja neitt aukalega á sig.
„Á sama tíma og þeir fátæku og millistéttin er að berjast fyrir okkur í Afganistan og á meðan flestir Bandaríkjamenn berjast við að láta enda ná saman höldum við hinir ofurríku áfram að fá okkar stórfurðulegu skattaívilnanir."
Buffett lýkur greininni á þeim orðum að hann og vinir hans hafi verið dekraðir nægjanlega af vinum milljarðamæringa á þingi. Það sé kominn tími til fyrir stjórnvöld að ræða af fullri alvöru um að deila ábyrgðinni.