Viðskiptaráð Íslands telur vaxtahækkun Seðlabanka Íslands í dag óskiljanlega í ljósi þeirra aðstæðna sem ríkja í íslensku þjóðfélagi.
„Í nýrri hagspá Seðlabankans, sem birt var í Peningamálum, er gert ráð fyrir umtalsvert meiri verðbólgu á þessu ári og því næsta en í síðustu spá bankans. Vafalaust liggja þær spár til grundvallar ákvörðunar peningastefnunefndar á þessum tímapunkti.
Hins vegar er hún óskiljanleg í ljósi þess að íslensk fyrirtæki og heimili glíma við margvíslegar og þungar byrðar sem rekja má t.a.m. til nýlegra kjarasamninga, yfirdrifinna skattahækkana, hruns í eftirspurn og tafa á endurskipulagningu skulda.
Allt hefur þetta hamlað bata hagkerfisins og stjórnendur eru almennt svartsýnir á rekstrarhorfur næstu mánaða.
Í spá Seðlabankans er einungis gert ráð fyrir 1,6% hagvexti á næsta ári og lækkar bankinn spá sína úr 2,9%.
Þessi umfangsmikla lækkun á hagvaxtarhorfum er verulegt áhyggjuefni, en með slakari horfum um hagvöxt er sérstaklega erfitt að réttlæta vaxtahækkun. Að auki byggja forsendur aðlögunar í fjármálum hins opinbera á því að hagvöxtur aukist verulega.
Erfitt er að sjá að það samrýmist markmiðum um aukinn hagvöxt að vextir verði hækkaðir. Í spá Seðlabankans er einnig gert ráð fyrri minni atvinnuvegafjárfestingu bæði á þessu ári og því næsta.
Aukin fjárfesting er grunnforsenda meiri hagvaxtar og hækkun vaxta mun draga úr hvötum til fjárfestingar og atvinnuuppbyggingar. Ákvörðunin er einnig illskiljanleg þegar horft er til þróunar erlendis á síðustu vikum, bæði í Evrópu og Bandaríkjunum," segir í tilkynningu frá Viðskiptaráði.
Órói hefur verið mikill og blikur þar á lofti um efnahagslegan bata. Þó áhrifin á efnahagshorfur hérlendis séu ekki beinar þá er ljóst að samdráttur á alþjóðamörkuðum mun smitast til Íslands þegar frá líður, að því er segir í tilkynningu frá Viðskiptaráði.
Ekki trúverðugleika til framdráttar
„Seðlabankinn hefur glímt við skort á trúverðugleika vegna forsögu bankans síðustu ár. Aðgerðir sem m.a. er ætlað að auka trú á bankann mega ekki vera á kostnað endurreisnar hagkerfisins.
Hætt er við að vaxtahækkunin nú muni bæði rýra trú á bankann og efnahagsbata," segir í tilkynningu frá Viðskiptaráði.
„Það getur ekki verið trúverðugleika seðlabanka nokkurs lands til framdráttar ef aðgerðir hans veikja og seinka efnahagsbata úr kreppuástandi. Vegna þess er óskiljanlegt að Seðlabankinn hafi talið nauðsynlegt að hækka stýrivexti,“ segir Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands.