Stærsti banki Bandaríkjanna, Bank of America, hyggst segja 3500 starfsmönnum upp á næstunni. Uppsagnirnar eru hluti af endurskipulagningu bankans og ekki er útilokað að nokkur þúsund starfsmenn í viðbót muni missa störf sín.
Enn á eftir að ákveða hversu margir muni missa störf sín í allt, en talið er að það gætu orðið að minnsta kosti 10.000 starfsmenn, það eru 3,5% starfsmannafjöldans. Lokaákvörðunar er að vænta í byrjun næsta mánaðar.
Uppsagnirnar ná til allra deilda bankans og munu koma til framkvæmda í september. Sumum þeirra, sem sagt verður upp, hefur verið kynnt ákvörðunin, öðrum ekki.
Í síðustu viku sagði Brian Moynihan, framkvæmdastjóri Bank of America, að bankinn væri í betri stöðu nú en hann var í kreppunni. Verð hlutabréfa í bankanum hefur lækkað um 47% það sem af er þessu ári.
Fleiri stórir bankar hafa tilkynnt um fækkun starfsmanna. Þannig hyggst breski bankinn HSBC fækka störfum um 30.000 fram til ársins 2013 og breski Lloyds-bankinn mun leggja niður 15.000 störf fram til ársins 2014.