Fréttaskýring: Gætu þurft að afskrifa milljarða

Nær öll fasteignalán á Íslandi eru verðtryggð og eru hagsmunir …
Nær öll fasteignalán á Íslandi eru verðtryggð og eru hagsmunir í málinu því miklir. mbl.is/Arnaldur

Óhætt er að segja að kvörtun Hagsmunasamtaka heimilanna til Umboðsmanns Alþingis hafi vakið athygli innan fjármálageirans, þótt fólk þar hafi verið tregt til að tjá sig opinberlega um hana. Kvörtunin snýr að því hvernig verðbætur á verðtryggð lán hafa verið reiknuð í gegnum tíðina.

Heimildarmenn Morgunblaðsins segja að ein hugsanleg afleiðing þessa geti verið að eigendur verðtryggðra eigna, bankar og lífeyrissjóðir þar á meðal, gætu lent í því að þurfa að afskrifa stóran hluta þessara eigna og myndi það ganga hættulega nærri efnahagsreikningi þeirra.

Rétt er þó að taka fram að þetta er aðeins ein möguleg niðurstaða af nokkrum. Óvissan sé umtalsverð, ekki síst vegna þess að margir innan bankakerfisins segjast ekki skilja almennilega hvað það er sem bankarnir eiga að hafa gert vitlaust og hvernig þeir hefðu þá átt að haga sínum málum annars.

Hvað verður um höfuðstólinn?

Eins og greint var frá í Morgunblaðinu í gær breytir það engu varðandi heildarfjárhæð sem lántaki greiðir yfir allan tíma verðtryggðs láns hvort verðbætur leggist á greiðslur eða höfuðstól. Endanleg niðurstaða er sú sama.

Það á hins vegar ekki endilega við þegar litið er á stöðu lánsins þegar 20 ár eru liðin frá töku 40 ára láns, svo dæmi sé tekið. Ef dómstólar komast að því að ólöglegt sé að reikna verðbætur á höfuðstól láns þá er ekki ólíklegt að höfuðstóllinn, sem ekki hefur elt verðbólgu, sé í raun orðinn mjög lítill á núvirði. Því geti verið mjög auðvelt fyrir lántaka að greiða upp gamalt verðtryggt lán ef komist er að því að óheimilt hafi verið að reikna verðbætur á höfuðstól.

Einn heimildarmaður Morgunblaðsins úr bankakerfinu, sem ekki vildi láta nafns síns getið, segir að í raun séu þrjár mögulegar niðurstöður í málinu – að því gefnu að Hagsmunasamtökin hafi rétt fyrir sér.

Fyrsti möguleikinn er sá að allar verðbæturnar leggist á greiðslur lántaka en ekki á höfuðstólinn. Þá eykst mánaðarleg greiðslubyrði mjög mikið og lánið verður í raun að óverðtryggðu láni. Verðtryggingin í þessu dæmi verður því að engu.

Annar möguleikinn er sá að lántaki fái lánað hjá lánveitanda fyrir mánaðarlegum verðbótum og að það lán leggist við höfuðstól upphaflega lánsins. Með þessu móti væri hægt að breyta verðtryggingu höfuðstóls í verðtryggingu greiðslna án þess að það hafi áhrif á stöðu mála eins og hún er í dag.

Hundruð milljarða í húfi

Afleiðingarnar fyrir fjármálakerfið gætu orðið miklar og alvarlegar, að sögn heimildarmanna Morgunblaðsins.

„Ef svo fer að dómstólar dæma verðtryggingu höfuðstóls ólöglega er hugsanlegt að færa þurfi niður verðtryggðar eignir í bókhaldi fyrirtækja og stofnana. Eðlilegt væri að miða við uppgreiðsluvirði eignanna, þ.e. nafnvirði höfuðstóls á hverjum tíma að viðbættu uppgreiðsluálagi nema unnt sé að sýna fram á að sjóðstreymi sé tryggt til lengri tíma. Í tilviki eldri verðtryggðra lána getur verið um umtalsverða lækkun á bókfærðu virði þessara eigna,“ segir Sturla Jónsson, endurskoðandi hjá Íslenskum endurskoðendum.

Lífeyrissjóðirnir eiga ríflega 535 milljarða króna í verðtryggðum íbúðabréfum. Íbúðalán bankakerfisins nema alls ríflega 260 milljörðum króna og eru þau nær öll verðtryggð.

Rétt er að ítreka að þessi niðurstaða, þ.e. miklar afskriftir verðtryggðra eigna, er aðeins ein hugsanleg niðurstaða af mörgum. Verði hún hins vegar að veruleika er íslenskt fjármálakerfi í raun að sjá fram á endurtekningu á gengislánaklúðrinu, þar sem komist var að því að margra ára gömul útlánahefð hafði allan tímann verið ólögleg. Afleiðingin var tap fyrir fjármálakerfið upp á tugi ef ekki hundruð milljarða króna, en það mál myndi hverfa í skuggann af verðtryggingarklúðrinu, ef um klúður er að ræða.

Ekki eru allir sammála um að um nokkurt klúður sé að ræða. Þórey S. Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða, sagði í skriflegu svari til Morgunblaðsins að í sínum huga væri málið svo vitlaust að hún teldi ekki taka því að velta sér upp úr því hvaða áhrif það hefði á bókfærðar eignir lífeyrissjóðanna.

Þegar haft var samband við Seðlabankann vegna málsins fengust þau svör að bankinn væri að vinna að svari til Umboðsmanns Alþingis og þar til þeirri vinnu væri lokið vildi Seðlabankinn ekki tjá sig um málið.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK