Skiptum á þrotabúi Pennans lauk fyrr í sumar. Að sögn Sigurmars Albertssonar skipaðs skiptastjóra greiddust allar forgangskröfur, samtals að upphæð rösklega 136,8 milljónir. Til veðkrafna greiddust 1.486,4 milljónir og til almennra krafna 41,8 milljónir.
Sitja þá eftir ógreiddar veðkröfur að upphæð 6.433,8 milljónir og almennar kröfur að upphæð 1.024,7 milljónir. Ógreiddar kröfur eru þá samanlagt 7.458,5 milljónir.
Að sögn skiptastjóra er Kaupþing banki eigandi megnisins af ógreiddu kröfunum. Um er að ræða skuldir vegna útrásarævintýra, s.s. kaffihúsakeðju á Írlandi og verslana í Finnlandi, Lettlandi og Litháen. Penninn keypti m.a. stóran hlut í AN Office árið 2006.