Evran er að hrynja og skuldavandi Evrópusambandsins stendur bandaríska hagkerfinu fyrir þrifum. Þetta sagði fyrrverandi seðlabankastjóri Bandaríkjanna, Alan Greenspan, í ræðu hjá Innovation Nation Forum í dag samkvæmt frétt Dow Jones fréttaveitunnar.
„Evran er að hrynja,“ sagði Greenspan og bætti við að ástæða þess að ekki gengi betur í efnahagsmálum Bandaríkjanna væri sú mikla óvissa sem ríkti og lagði í því sambandi áherslu á að 20% af útflutningi landsins færu til Evrópu.
Hann sagði helsta vandamálið það að evrópskir bankar væru að lenda í vandræðum vegna þess að þeir ættu mikið af skuldum ríkja sem væru við það að lenda í greiðsluþroti.
Þá sagðist Greenspan ekki eiga von á því að Bandaríkin myndu aftur lenda í kreppu þó líkurnar á því hefðu aukist.