Styrking krónunnar hefur minni áhrif til lækkunar á vöruverði heldur en veiking hennar hefur á hækkun á vöruverði. Þetta er meginniðurstaða rannsóknar sem Rannsóknasetur verslunarinnar hefur gert.
Í skýrslu um rannsóknina er fjallað um hvernig þróun gengis hefur áhrif á verðlag og er sjónum sérstaklega beint að sérkennum Íslands hvað það varðar. Metin eru áhrif gengisbreytinga á verðlag innfluttra matvæla, raftækja og byggingarefna. Jafnframt er kannað hvort áhrif gengis á verðlag sé mismunandi eftir því hvort um styrkingu krónunnar eða veikingu er að ræða.
Að sögn Rannsóknarsetursins virðast gengisbreytingar koma að fullu fram í verðlagi allra þeirra vöruflokka sem litið var til. Vísbendingar sjáist um að styrking krónunnar hafi í öllum tilvikum minni áhrif á verðlag en veiking hennar gerir.
Áhrif gengisbreytinga koma hvað hraðast fram fyrir flokk innfluttrar matvöru. Þau eru að mestu komin fram að fimm mánuðum liðnum. Fyrir aðra flokka sem kannaðir voru liðu um sjö til níu mánuðir þar til endanleg gengisáhrif höfðu að fullu komið fram.
Stofnunin segir, að niðurstöðurnar staðfesti þannig þær fullyrðingar, sem oft sé varpað fram, að viðbrögð fyrirtækja séu ólík eftir því hvort gengi styrkist eða veikist. Slík hegðun fyrirtækja sé þó ekki séríslenskt fyrirbæri.