Á aukahluthafafundi í Vinnslustöðinni í Vestmannaeyjum í gær var felld tillaga frá eigendum minnihluta hlutafjár um að félagið skyldi höfða skaðabótamál gegn framkvæmdastjóra og nokkrum núverandi og fyrrverandi stjórnarmönnum félagsins vegna kaupa fyrirtækisins á 35% hlut í Ufsabergi-útgerð ehf. í Eyjum fyrir þremur árum.
Í tilkynningu frá Sigurgeiri B. Kristgeirssyni, framkvæmdastjóra Vinnslustöðvarinnar, kemur fram að flutningsmaður tillögunnar var Magnús Helgi Árnason sem situr í stjórn félagsins á vegum Stillu útgerðar, félags í eigu bræðranna Guðmundar og Hjálmars Kristjánssona frá Rifi. Stilla útgerð á tæplega þriðjungshlut í Vinnslustöðinni.
„Þessir meðeigendur okkar hafa með ýmsu móti reynt að ná undirtökum í VSV undanfarin ár og vanda ekki meðulin til að ná settu marki. Í nóvember 2007 óskaði Hróbjartur Jónatansson, þáverandi lögmaður Guðmundar og Hjálmars, eftir hluthafafundi þar sem lagt var til að skipuð yrði rannsóknarnefnd til að kanna tiltekna þætti er vörðuðu bæði starfsemi félagsins og einstaka starfsmenn og stjórnarmenn. Magnús Helgi Árnason, sem einnig þá sat í stjórn VSV á vegum bræðranna, dró hins vegar tillöguna til baka og fundarboðið sömuleiðis.
Liðu svo fjögur ár og dúkkuðu þá sumar af þessum tillögum upp á nýjan leik á aðalfundi VSV í júní 2011. Allan þennan tíma höfðu Guðmundur, Hjálmar og Magnús Helgi setið í stjórn VSV án þess að leita upplýsinga eða reyna yfirleitt að finna ásökunum sínum stað. Á stjórnarvettvangi höfðu þeir að sjálfsögðu alla möguleika á að spyrjast fyrir og afla upplýsinga.
Í loftinu hefur legið um hríð að Stillumenn ætluðu sér af einhverjum ástæðum að gera kaup VSV á 35% eignarhlut í Ufsabergi-útgerð (sem á Gullberg VE) fyrir þremur árum tortryggileg. Það gerðist svo eftir aðalfund VSV í júní sl. að Stilla útgerð ehf. krafðist þess að skaðabótamál yrði höfðað gegn okkur sem höfðum frumkvæði að því að kaupa ríflega þriðjungshlut í Ufsabergi-útgerð. Ég vísa því á bug að þau viðskipti hafi skaðað VSV á nokkurn hátt. Þvert á móti fullyrði ég að kaupin hafi verið mikið heillaspor fyrir VSV, hluthafa félagsins, starfsmenn þess og samfélagið í Eyjum yfirleitt.
Vandséð er að það vaki fyrir Guðmundi og Hjálmari Kristjánssonum að styrkja og efla VSV. Slíkt verður ekki gert með því að reyna að gera mikilvægar ákvarðanir í starfsemi félagsins tortryggilegar og leitast við að skapa óróa og sundrungu í hluthafahópnum. Þeim hefur vel að merkja ekkert orðið ágengt í þeim efnum, heldur hefur þeim tekist afar vel að þjappa meirihlutahópnum í félaginu enn betur saman og vekja um leið áleitnar spurningar um hvað þeim sjálfum gangi til.
Stillumönnum hefur sem sagt mistekist að ná undirtökum í VSV en mér segir svo hugur um að næsta mál á dagskrá verði að krefjast þess að félaginu verði hreinlega slitið. Þannig fái þeir tækifæri til að ráðstafa þriðjungi aflaheimilda VSV, þ.e. þriðjungi þess sem eftir verður þegar Jón Bjarnason hefur hirt af okkur það sem hann og aðrir stjórnarliðar áforma að taka í ríkispottana sína til pólitískrar úthlutunar," segir í tilkynningu Sigurgeirs.