Vísitala neysluverðs miðuð við verðlag í ágúst hækkaði um 0,26% frá fyrra mánuði og hefur hækkað um 5% undanfarna 12 mánuði, samkvæmt útreikningum Hagstofunnar. Er þetta heldur minni hækkun milli mánaða en greiningardeildir banka höfðu spáð en 12 mánaða verðbólga nú er sú sama og í júlí.
Síðustu þrjá mánuði hefur vísitalan hækkað um 0,9% sem jafngildir 3,5% verðbólgu á ári.
Vísitalan án húsnæðis hækkaði meira í ágúst eða um 0,36% og hefur hækkað um 4,7% síðustu 12 mánuði.
Hagstofan segir, að sumarútsölur séu víða um garð gengnar og hækkaði verð á fötum og skóm um 5,5%. Verð á mat og drykkjarvöru hækkaði um 0,8% en verð á bensíni og olíum lækkaði um 1,7%.