Hagnaður Byrs hf. á síðasta ári nam rúmlega 1,1 milljarði króna eftir skatta. Er uppgjörið byggt á átta mánaða tímabili sem hófst 23. apríl og lauk um áramótin. Fram kemur í ársskýrslu Byrs að Íslandsbanki skrái sig fyrir nýju 10 milljarða króna hlutafé í Byr.
Að teknu tilliti til skráningar Íslandsbanka fyrir nýju hlutafé í Byr að fjárhæð 10 milljarðar króna reiknast eiginfjárhlutfall Byrs hf. 14,6% miðað við fjárhæðir í árslok 2010. Ef dregið væri á víkjandi lán frá ríkissjóði samkvæmt samkomulagi frá 14. október 2010 að fjárhæð 5 milljarðar króna reiknast eiginfjárhlutfall 19,3%.
Íslandsbanki hefur keypt Byr og stendur til að sameina bankana tvo. Samkeppniseftirlit og Fjármálaeftirlit hafa nú málið til skoðunar og beðið er samþykkis þeirra fyrir samrunanum.