Athugasemd vegna fréttar um MP banka

EA fjárfestingafélag, áður MP banki, hefur sent mbl.is eftirfarandi athugasemd vegna fréttar sem birt var í gærkvöldi um félagið. 

„Í aðalfréttatíma RÚV í gærkvöldi var í spánýrri stórfrétt gerð grein fyrir því að MP banki hefði, haustið 2008, selt hlutabréf í Landsbanka Íslands hf. Var þeim viðskiptum lýst svo af fréttastofu RÚV að MP banki hafi hirt söluandvirði hlutabréfa sem sett höfðu verið að veði fyrir láni sem BYR og MP banki áttu aðild að sem lánveitendur. Með því hefði MP banki hlunnfarið BYR. Fullyrt var í fréttinni að andvirði hlutabréfanna hafi ekki komið til lækkunar á skuld lántaka og BYR hafi verið svikinn um hlutdeild í andvirði hlutabréfanna.

Með þessum fréttaflutningi er, vægt til orða tekið, alvarlega hallað réttu máli og vegið að þeim einstaklingum sem að viðskiptunum komu af hálfu MP banka. MP banki skortseldi hlutabréf í Landsbanka Íslands 2. og 3. október 2008 eins og það er kallað þegar maður kaupir sér áhættuvörn í verðbréfaviðskiptum. Salan var hluti af áhættuvörn bankans enda bar bankinn á þessum tíma áhættu af fjármálagerningum útgefnum af Landsbanka Íslands. Slíkar varnir eru eðlilegur og nauðsynlegur þáttur í rekstri fjármálafyrirtækja. Skortsölusamningarnir svonefndu voru á gjalddaga 7. og 8. október 2008. Til efnda á samningunum fékk MP banki síðan afhent hluta hlutabréfa frá BYR sem voru til tryggingar láni sem bæði MP banki og BYR áttu aðild að.

Við umrædda sölu myndaðist söluhagnaður hjá MP banka enda féllu hlutabréfin gríðarlega í verði frá sölu fram að afhendingu. MP banki hafði sem sé spáð rétt fyrir um gengi hlutabréfa í Landsbankanum. En það er alrangt að andvirði hlutabréfanna hafi ekki komið til lækkunar á umræddu láni. Í tilvitnuðu dómsmáli milli MP banka og BYRs er einungis deilt um það hvort andvirði hlutabréfanna hafi átt að koma til MP banka til góða eingöngu eða hvort BYR bar hlutur í áhættuvörn MP banka sem BYR ákvað að taka ekki. En BYR hefði að sjálfsögðu getað gert sömu ráðstafanir og MP banki. Þar sem skortsala MP banka var BYR óviðkomandi taldi MP banki BYR ekki eiga kröfu til hlutdeildar í andvirði sölunnar. Um þessa ráðstöfun og samningssamband BYR og MP banka, sem í dag ber heitið EA fjárfestingarfélag hf., er deilt fyrir Hæstarétti.

Í fréttinni var beinlínis sagt að um svik hefði verið að ræða. Svik eru alvarlegt hegningarlagabrot. Ekkert í deilunni gefur minnsta tilefni til tals um svik. Ekki hefur einu sinni verið lögð fram kæra til lögreglu í tilefni málsins og hefur þó verið rúmur tími til. Þá var sagt að þetta hafi forðað MP banka frá gjaldþroti. Hin umdeilda fjárhæð, 300 milljónir króna, var 5% af eigin fé MP banka haustið 2008. Sú fjárhæð skipti auðvitað ekki sköpum um afdrif bankans. Ekki eru tök á að elta ólar við fleiri rangfærslur og misskilning fréttastofu RÚV.

Hér um bil það eina sem rétt var með farið í frétt RÚV var þannig nöfn aðilanna. Það vekur hins vegar furðu að Mbl skyldi, að fenginni reynslu, endurtaka þennan fréttaflutning og hafa við vinnslu fréttar sinnar látið hjá líða að leita upplýsinga hjá EA fjárfestingarfélagi hf. eða leita eftir afstöðu þeirra einstaklinga sem þarna voru bornir alvarlegum sökum," segir í athugasemdinni sem Einar Hálfdánarson, stjórnarformaður EA sendi frá sér.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK