Breska blaðið Guardian fjallar í dag um Björgólf Thor Björgólfsson, athafnamann, og segir að hann búi enn í Lundúnum, þremur árum eftir bankahrunið á Íslandi, berist áfram mikið á og stýri fyrirtækjaveldi, sem sé jafn ógagnsætt og áður.
Greinina skrifa þau Simon Bowers og Sigrún Davíðsdóttir. Þau segja, að þótt Björgólfur hafi hætt við að láta smíða lystisnekkju, sem átti að kosta yfir 100 milljónir punda, nærri 19 milljarða króna, eigi hann enn miklar eignir í Bretlandi, þar á meðal hús í Notting Hill hverfinu sem hann keypti árið 2000 fyrir 4 milljónir punda og lét síðan stækka. Þá eigi hann Aston Martin sportbíl með einkanúmeri og nokkur mótorhjól.
Hann neiti að upplýsa hvort hann eigi enn hús í suðaustur Englandi, Challenger einkaþotu og 42 feta snekkju sem nefnist Element. Haft er eftir talskonu Björgólfs, að Björgólfur noti hvorki einkaþotu né snekkju. Margar af eignum hans hafi verið hluti af samkomulagi, sem Björgólfur gerði um uppgjör skulda við lánardrottna. Guardian segir hins vegar að hvorki þotan né snekkjan virðist hafa verið seld.
Áætlunin um snekkjuna stóru var nefnd Project Mars. Guardian segir, að Björgólfur hafi hætt við allt saman um það bil sem smíði á snekkjunni átti að hefjast í skipasmíðastöð á Ítalíu. Samkvæmt teikningum hafi átt að vera þyrlupallur, líkamsræktarsalur og heilsulind um borð, sjö metra löng sundlaug, og „bílskúr". Nú reyni hönnuðirnir að finna annan milljarðamæring, sem vilji fjármagna verkefnið.