Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn segir, að íslensk stjórnvöld hafi framfylgt efnahagsáætlun þeirri, sem gerð var fyrir Ísland, af krafti og því sé áætluninni lokið. Markmiðin með áætluninni hafi náðst og Ísland sé á réttri leið út úr erfiðleikunum.
Stjórn sjóðsins samþykkti sjöttu endurskoðun efnahagsáætlunarinnar í gær og getur Ísland þá fengið lokaskammtinn af láninu, sem samið var um í nóvember 2008. Um er að ræða jafnvirði 51 milljarðs króna en alls nemur lánafyrirgreiðsla sjóðsins um 257 milljörðum króna. Að auki kemur lántökuréttur frá Norðurlöndunum og Póllandi í tengslum við áætlunina, samtals 150 milljarðar króna.
Í tilkynningu frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum segir, að starfsmenn sjóðsins og íslensk stjórnvöld hafi samþykkt að draga úr kröfum um niðurskurð ríkisútgjalda í ljósi þess að framkvæmd efnahagsáætlunarinnar hafi gengið vel. Mikilvægt sé hins vegar að þessari breyttu áætlun sé framfylgt.
Þá segir AGS að Seðlabankinn hafi með réttu hækkað stýrivexti í ágúst vegna aukinnar verðbólguhættu. Þá sé verið að taka fyrstu skref í átt til þess að gjaldeyrishöftum verði aflétt. Kraftur hafi loks verið settur í aðgerðir við endurskipuleggja skuldir fyrirtækja og endurfjármögnun kjarna bankakerfisins sé lokið.
Fleira er talið til en AGS segir, að ýmis ljón séu enn í veginum. Þótt spáð sé hagvexti á þessu ári sé atvinnuleysi enn mikið og verðbólga fari vaxandi, m.a. vegna hás hráefnisverðs. Nauðsynlegt sé að fylgja áætlun um endurreisn fast eftir.