Meðalverð sem Eignasafn Seðlabanka Íslands fær fyrir 73,03% hlut sinn í tryggingafélaginu Sjóvá, ef allur kaupréttur verður nýttur, jafngildir því að heildarvirði Sjóvár sé ríflega 10 milljarðar króna.
Þetta kemur fram í greinargerð Seðlabankans um söluna á Sjóvá, sem birt er á vef bankans. Seðlabankinn seldi Stefni 52,4% hlut í Sjóvá og kaupandinn hefur jafnframt kauprétt á 20,63% hlut til viðbótar.
Í greinargerðinni er svarað ýmissi gagnrýni, sem komið hefur fram á söluferlið. Segir Seðlabankinn m.a. rangt, að hagstæðasta tilboðinu í Sjóvá hafi ekki verið tekið.
Fram kemur, að 28 aðilar sóttu gögn og 12 aðilar lögðu fram tilboð þegar formlegt söluferli á Sjóvá hófst. Um var að ræða opið söluferli þar sem fagfjárfestum sem uppfylltu tiltekin skilyrði, m.a. eiginfjárstöðu umfram 500 milljónir króna, var boðið að gera óskuldbindandi tilboð. Í kjölfar þess fengu 6 aðilar ítarlegri upplýsingar um Sjóvá.
Á grundvelli tilboða var svo haldið áfram viðræðum við þá aðila sem voru með hagstæðasta tilboðið. Seðlabankinn segir, að Stefnir hf. sem stofnaði SF1 utan um fjárfestinguna í Sjóvá og reki sjóðinn í dag, hafi tekið þátt í söluferlinu frá upphafi og verið metinn hæfur strax þá af umsjónaraðila söluferlisins.
Seðlabankinn segir, að viðræður við hóp fjárfesta, sem fagfjárfestasjóður Stefnis var þá orðinn hluti af og var einn stærsti einstaki aðilinn og áttu hæsta tilboð í Sjóvá, hafi staðið fram á sumar en töfðust verulega vegna ýmissa ytri þátta, t.d. dóms Hæstaréttar í svokölluðu gengistryggingarmáli. Viðræðum hafi samt sem áður haldið áfram fram á haust eða þar til fulltrúar kaupanda og seljanda höfðu komið sér saman um öll helstu ákvæði í kaupsamningi. Skömmu áður dró SAT sig út úr þeim viðræðum.
„Vegna atvika sem hvorki (Eignasafn Seðlabanka Íslands) né Seðlabankinn hafa heimild til að upplýsa opinberlega um var ekki mögulegt að ganga frá kaupsamningi fyrr en þau mál skýrðust frekar. Bjóðendur settu hins vegar einhliða lokafrest og slitu þeir svo viðræðum þegar komið var fram yfir þann frest hinn 22. nóvember 2010. Ekki var ljóst hvert framhaldið yrði á þessum tímapunkti og mikil umræða í kringum viðskiptin voru farin að hafa töluverð áhrif á starfsemi og starfsfólk Sjóvár. Því sendi stjórn Sjóvár frá sér tilkynningu 23. nóvember 2010 um að formlegu söluferli væri lokið en tekið var fram í tilkynningu félagsins að áfram yrði skoðað með aðkomu fjárfesta að félaginu. Það var gert og þegar hluti af fyrri kaupendahópi, sem metinn hafði verið hæfur til að taka þátt í söluferlinu upphaflega, vildi halda ferlinu áfram á grundvelli samninga sem nánast voru frágengnir var talið eðlilegt að líta á það sem hluta af sama söluferli og hófst í janúar 2010," segir m.a. í greinargerðinni.