13 milljarðar umfram forgangskröfur

Landsbankinn
Landsbankinn mbl.is / Hjörtur

Virðisaukning eignasafns Landsbanka Íslands á öðrum ársfjórðungi nemur rúmum 45 milljörðum króna milli tímabila. Áætlað er að endurheimtur verði um 13 milljörðum króna hærri en sem nemur bókfærðum forgangskröfum í bankann, sem eru aðallega Icesave-innlán og heildsöluinnlán.

Þetta kom fram á blaðamannafundi nú síðdegis þegar kynntar voru uppfærðar upplýsingar um áætlað virði eignasafns Landsbanka Íslands hf., gamla Landsbankans, miðað stöðuna í lok júní. Þessar upplýsingar voru kynntar fyrir kröfuhöfum bankans fyrr í dag.

Bankinn segir að í erlendum myntum sé raunaukningin frá síðasta ársfjórðungi rúmlega 32 milljarðar króna og mismunurinn sé að langmestu leyti vegna gengisbreytinga. Ef miðað er við gengi krónunnar 22. apríl 2009 séu endurheimtur áætlaðar um 1.332 milljarðar króna sem er um 13 milljörðum  meira en sem nemur heildarfjárhæð bókfærðrar stöðu forgangskrafna. Sú upphæð nam 1.319 milljörðum króna í lok júní.

Er því áætlað, miðað við stöðuna eftir fyrstu sex mánuði þessa árs og þessar forsendur, að endurheimtur verði um 13 milljörðum króna hærri en sem nemur bókfærðum forgangskröfum í bankann.

Raunaukning á áætluðum endurheimtum á öðrum ársfjórungi er einkum til komin vegna hækkunar á verðmati á eignum bankans, m.a. á kröfum á fjármálafyrirtæki, útlánum til fyrirtækja í lánasafni og hækkunar á áætluðu verðmæti skilyrta skuldabréfsins sem Landsbankinn hf., það er nýi Landsbankinn, mun gefa út til gamla bankans.

Fram kemur í tilkynningu frá bankanum að ef áætlaðar endurheimtur séu miðaðar við gengi íslensku krónunnar á viðmiðunardögum nemi þær 1.290 milljörðum króna miðað við gengi krónunnar í lok júní eða um 98% af bókfærðri stöðu forgangskrafna.

Verðmati á Iceland Food-keðjunni ekki breytt á tímabilinu

Bankinn segir að reiðufé skili sér hraðar en fyrri áætlanir gerðu ráð fyrir eða sem nam 453 milljörðum króna um mitt þetta ár.

„Meginskýring þessa er að útlán hafa innheimst hraðar en áður var gert ráð fyrir. Reiðufé er nú sem nemur um rúmlega þriðjungi af bókfærðri stöðu forgangskrafna, áætlaðar endurheimtur samkvæmt samningi við Landsbankann hf. (áður NBI hf.) nema um þriðjungi af verðmæti heildareigna og útlán og aðrar eignir nema um þriðjungi.

Áætluðu verðmæti 67% eignarhluta bankans í verslunarkeðjunni Iceland Foods var ekki breytt á tímabilinu, en hlutur bankans ásamt 10% eignarhluta Glitnis banka, samtals um 77%, er í sameiginlegu söluferli," segir ennfremur í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK