Gamli Landsbanki hefur krafist gjaldþrotaskipta á búi Eignarhaldsfélagsins ISP ehf., sem er í eigu Ingibjargar Stefaníu Pálmadóttur. Krafan er gerð vegna ógreiddrar kröfu upp á rúmlega 2,2 milljarða króna.
Þetta kemur fram í Lögbirtingablaðinu, en fyrirtaka málsins hjá héraðsdómi Reykjavíkur verður 5. október næstkomandi.
Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins er ekki talið vera mikið af eignum í félaginu. Sem kunnugt er á Ingibjörg og eignarhaldsfélög hennar nærri því allt hlutafé í 365 miðlum ehf., sem reka m.a. Stöð 2 og Fréttablaðið. Samkvæmt því sem Morgunblaðið kemst næst er Eignarhaldsfélagið ISP ehf. ekki eitt af þeim eignarhaldsfélögum.