Allar helstu hlutabréfavísitölur í Evrópu lækkuðu mikið í dag en mikill ótti er um að önnur efnahagslægð sé yfirvofandi í helstu hagkerfum heims og eins er erfið skuldastaða evru-ríkjanna mikið áhyggjuefni fjárfesta.
Í Lundúnum lækkaði FTSE 100 vísitalan um 3,58% og í París féll CAC 40 vísitalan um 4,73%. Mest var lækkunin í Þýskalandi, stærsta hagkerfi Evrópu, en í Frankfurt lækkaði DAX vísitalan um 5,28% og hefur ekki verið lægri í tvö ár.
Í Mílanó lækkaði hlutabréfavísitalan um 4,83% og í Madríd um 4,69%. Svissnesk hlutabréf lækkuðu einnig mikið í verði en þar nam lækkun vísitölunnar 4,04%.