Ekkert sérstakt við íslensku leiðina

Jón Daníelsson.
Jón Daníelsson. mbl.is/Kristinn

Jón Daníelsson, hagfræðingur við London School of Economics, segir bandaríska hagfræðinginn Paul Krugman draga rangar ályktanir af stöðu mála hér á landi og misskilja viðbrögð íslenskra stjórnvalda við bankahruninu haustið 2008.

Sem kunnugt er hefur Krugman, sem er handhafi minningarverðlauna sænska seðlabankans um Alfred Nobel fyrir framlag sitt í hagfræðirannsóknum, sýnt þróun efnahagsmála hér á landi mikinn áhuga á undanförnum misserum. Hann hefur oftar en ekki hrósað stjórnvöldum fyrir hvernig hafi verið haldið á málum eftir bankahrunið.

Á bloggi sínu á vefsvæði bandaríska blaðsins The New York Times skrifaði Krugman, í tilefni þess að efnahagsáætlun stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er lokið, að góður árangur íslenskra stjórnvalda sé tilkominn vegna þess að þau hafi beitt óhefðbundnum úrræðum og aðgerðum vegna bankahrunsins: Skuldir hafi verið afskrifaðar, gjaldeyrishöft hafi verið sett á eftir að gengi gjaldmiðilsins hafi fallið verulega. Krugman segir þessa leið hafa skilað árangri og að hún hafi tryggt að kreppunni hér á landi sé lokið og hún hafi leitt til minna atvinnuleysis en ella.

Jón segir aftur á móti fráleitt að tala um íslenska sérstöðu í þessum efnum. Hann segir að íslensk stjórnvöld hafi ekki vikist undan neinum skuldum vegna bankahrunsins, þvert á móti hafi þau staðið við allar sínar skuldbindingar. Jón bendir á að þróun opinberra skulda eftir bankahrun taki af allan vafa um þetta mál, en íslenska ríkið var nánast skuldlaust fram til ársins 2008. Eftir hrun hefur hlutfall þeirra af landsframleiðslu farið yfir 100%.

Ennfremur bendir Jón á að ástæðan fyrir að atvinnuleysi er ekki enn meira en raun ber vitni sé fyrst og fremst fólksflótti en ekki fjölgun starfa. Fjárfesting er forsenda hagvaxtar og atvinnusköpunar og bendir Jón á að tölur sýni að hún hafi verið með því minnsta sem þekkist í Evrópu á undanförnum árum. Það, ásamt því sem virðist fjandsamlegt umhverfi beinnar erlendrar fjárfestingar af hálfu stjórnvalda, gefi ekki ástæðu til bjartsýni um hagvaxtar- og atvinnuhorfur hér á landi.

Jón segir að ef eitthvað sé sérstakt við hina íslensku leið úr bankahruninu, ef svo má að orði komast, þá séu það hin víðtæku gjaldeyrishöft sem sett voru á eftir hrun og ljóst sé að verði við lýði á næstu árum. Að mati hans eiga slík gjaldeyrishöft fáa formælendur og ljóst sé að þau séu nú þegar búin að skaða íslenskt hagkerfi og langan tíma muni taka að vinda ofan að því.

Jón segir einnig að ekki sé hægt að halda því fram að Ísland hafi einhverja sérstöðu vegna þess að gengi krónunnar hafi verið leyft að falla vegna efnahagserfiðleikanna. Gengisfelling til að verja samkeppnisfærni hagkerfa hafi til þessa talist hefðbundið úrræði í efnahagskreppum. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur til að mynda oftar en ekki sett gengisfellingu sem skilyrði fyrir efnahagsaðstoð. Einu nýmælin séu að AGS hafi veitt ýmsum evruríkjum efnahagsaðstoð á undanförnum árum án þess að gera gengisfellingu að skilyrði.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK