Hagnaður Arion banka 10,2 milljarðar

Hagnaður Arion banka nam 10,2 milljörðum króna á fyrstu sex mánuðum ársins samanborið við 7,9 milljarða króna á sama tímabili í fyrra.  Er afkoman umfram áætlanir sem skýrist einkum af endurmati á útlánasafni bankans á fyrirtækjasviði. Arðsemi eigin fjár var 20,3% á ársgrundvelli.

Á öðrum ársfjórðungi fór fram lokauppgjör Arion banka við þrotabú Kaupþings banka. Er hálfsársuppgjörið nú fyrsta uppgjör Arion banka þar sem þessir aðilar eiga engar kröfur hvor á annan. Eiginfjárhlutfall bankans styrktist og var 21,4% í lok tímabilsins sem er vel yfir mörkum Fjármálaeftirlitsins, samkvæmt fréttatilkynningu frá bankanum.

Hreinar rekstrartekjur Arion banka námu alls 24,5 milljörðum króna á tímabilinu samanborið við 17,1 milljarð árið 2010.  Hreinar vaxtatekjur á tímabilinu námu 11,2 milljörðum króna samanborið við 10,3 milljarða króna árið 2010.  Hreinar þóknanatekjur námu 5,1 milljarði króna samanborið við 2,9 ma.kr. á sama tímabili 2010. Aukningin skýrist einkum með tilkomu nýrra dótturfélaga í samstæðuna á seinni hluta ársins 2010, segir í tilkynningu.

Arðsemi eigin fjár 20,3%

Endurmat á eignum bankans leiddi til 3,9 ma.kr. virðisaukningar sem bókfærð er í gegnum rekstrarreikning þegar hlutdeild Kaupþings í hækkuninni hafði verið tekin með.
Arðsemi eigin fjár á ársgrundvelli var 20,3% en var 17,6% á sama tímabili árið 2010. Heildareignir námu 805,3 mö.kr. samanborið við 812,6 ma.kr. í árslok 2010.

Á tímabilinu greiddi bankinn arð til ríkisins upp á rúma 6 milljarða króna skv. sérstöku samkomulagi milli Skilanefndar Kaupþings og ríkisins frá september 2009 um greiðslu arðs að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

 Í lok tímabilsins voru 1.248 stöðugildi hjá samstæðunni, samanborið við 1.142 á sama tímabili  árið 2010. Aukningin stafar einkum af innkomu nýrra dótturfélaga í samstæðuna. Þar af voru stöðugildi hjá móðurfélaginu, Arion banka, 947 samanborið við 976 á sama tímabili árið 2010. 

Arion banki hefur nú lokið afgreiðslu á um 70% umsókna viðskiptavina bankans vegna sértækrar skuldaaðlögunar og 110% leiðarinnar og fyrir liggja ákvarðanir um niðurfærslur lána sem samtals nema um 9,5 milljörðum króna. Gert er ráð fyrir að afgreiðslu eftirstandandi mála ljúki á næstu mánuðum. Alls óskuðu um 2.450 viðskiptavinir Arion banka eftir því við bankann að fá að falla undir þessi úrræði. Meðalniðurfærsla lána viðskiptavina bankans sem nýtt hafa sér annað hvort 110% leiðina eða sértæka skuldaaðlögun nemur um 5,7 milljónum króna.

Búið að endurreikna gengislán 1.900 heimila

Sé sértæk skuldaaðlögun skoðuð sérstaklega þá hafa 700 umsóknir borist Arion banka og þar af hafa um 435 umsóknir verið samþykktar en 10 hafnað. Bankinn hefur því lokið afgreiðslu 64% þeirra umsókna sem borist hafa og samþykkt niðurfærslu lána um samtals 3 milljarða eða að meðaltali 6,8 milljónir, segir í tilkynningu.

Vegna endurútreiknings gengistryggðra íbúðalána hefur Arion banki fært niður lán sem nemur um 12 milljörðum króna. Að baki þeirri tölu er um 1900 heimili og nemur niðurfærslan því að meðaltali um 6,3 milljónum á heimili.

Við úrvinnslu skuldamála fyrirtækja var fyrirtækjum í viðskiptum við Arion banka skipt upp í tvo meginhópa, annars vegar lítil og meðalstór fyrirtæki sem skulda undir 1.000 milljónum króna og falla undir samkomulagið um Beinu brautina, og hins vegar stærri fyrirtæki sem skulda yfir 1.000 milljarða króna.

„Í upphafi lagði Arion banki ríka áherslu á stærri fyrirtæki. Um flókin úrlausnarefni var að ræða og nauðsynlegt að beita sértækum lausnum. Vel hefur miðað og er um 80% mála þegar lokið.

Arion banki hefur unnið að úrlausn lítilla og meðalstórra fyrirtækja samkvæmt Beinu brautinni. Bankinn gerði öllum þeim 470 fyrirtækjum sem eru í viðskiptum við bankann og falla undir samkomulagið tilboð fyrir 1. júní 2011. Af þessum 470 málum er ríflega 340 lokið með samkomulagi um úrlausn," segir í tilkynningu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK