Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, segir brýnt að losa gjaldeyrishöftin þar sem kostnaðurinn vegna þeirra vaxi með tímanum. Þetta kom fram í erindi sem Már flutti á fundi Félags löggiltra endurskoðenda um tilurð gjaldeyrishafta og áætlun um afnám þeirra í dag.
Hann segir að ábatann af hröðu afnámi verði hins vegar að meta á móti skammtímakostnaði vegna óstöðugleika á gjaldeyrismarkaði. Heimild er í lögum til að láta gjaldeyrishöftin gilda til ársloka 2015 en Már segir markmiðið vera að losa um höftin mun fyrr.
Að sögn Más var markmiðið með setningu gjaldeyrishaftanna í nóvember 2008 að stöðva frjálst fall krónunnar í framhaldi af bankahruni og veita skjól fyrir endurskipulagningu efnahagsreikninga og milda samdrátt. Án þess hefðu vextir þurft að vera miklu hærri. Hann segir að þetta hafi verið umdeilt en hinn möguleikinn hafi verið að taka dýfuna.