Allt gert til að hindra greiðslufall

Miðlarar við borð sín í kauphöllinni í Frankfurt í morgun.
Miðlarar við borð sín í kauphöllinni í Frankfurt í morgun. Reuters

Michel Barnier, sem fer með málefni fjármálamarkaða í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, sagði í dag að allt yrði gert til að hindra að lönd á evrusvæðinu lentu í greiðslufalli. Ekkert lát er á verðfalli á evrópskum hlutabréfamörkuðum.

„Sumir ættu að halda ró sinni," sagði Barnier við blaðamenn í París þegar hann var spurður um verðhrunið í morgun. 

Fjárfestar óttast að Grikkland sé á barmi greiðslufalls og að það gæti leitt til nýrrar fjármálakreppu um allan heim líkt og gjaldþrot bandaríska bankans Lehman Brothers gerði í september 2008.

Þá eru einnig vangaveltur um að matsfyrirtæki muni lækka lánshæfiseinkunn franskra banka sem eiga mikið af grískum ríkisskuldabréfum.

Barnier sagðist vera þess fullviss að evrópskar fjármálastofnanir væru nógu sterkar til að mæta tímabundnum erfiðleikum.  Christian Noyer, seðlabankastjóri Frakklands, sagði í dag að sama hver þróunin yrði í Grikklandi gætu franskir bankar staðist það.

Allar helstu hlutabréfavísitölur álfunnar hafa lækkað mikið í morgun. CAC-vísitalan í París hefur lækkað um rúm 4%, DAX-vísitalan í Frankfurt um 2,8% og FTSE-vísitalan í Lundúnum um 1,3%.  Norrænar vísitölur hafa einnig lækkað, C20-vísitalan í Kaupmannahöfn þó mest eða um 3,1%.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK