Stjórnendur stærstu fyrirtækjanna í bresku kauphöllinni eru byrjaðir að fá ríflegar aukagreiðslur á ný og eru þær nú hlutfallslega hærri en fyrir fjármálahrunið. Hafa laun stjórnenda hundrað stærstu fyrirtækjanna í kauphöllinni hækkað um 4% á árinu og því meira en almenn laun á markaði.
Það er breska dagblaðið Daily Telegraph sem segir frá þessu en á vef þess kemur fram að þegar mengið sé stækkað þannig að það nái til stjórnenda 250 stærstu fyrirtækjanna komi í ljós að launahækkunin sé á milli 3 og 5%.
Segir á vef blaðsins að hingað til hafi aukagreiðslur verið greiddar út upp að 70 til 80% af tilteknu hlutfalli en að það hafi nú hækkað í 87% hjá stjórnendum hundrað stærstu fyrirtækjanna og í 86% hjá þeim 250 stærstu.
Rætt er við Stephen Cahill, sérfræðing hjá Deloitte í Bretlandi, sem kemst svo að orði að ekki komi á óvart að aukagreiðslur séu hafnar á ný í ljósi þess að þær hafi verið frystar í tvö ár. Hitt komi á óvart að fjöldi stjórnenda fái nú launahækkanir umfram 5% sem sé bæði yfir verðbólgu og almennri launaþróun í Bretlandi.