Hagnaður Landsbankans var 24,4 milljarðar króna eftir skatta á fyrri hluta ársins. Þar af nam gengishagnaður vegna hlutabréfa í eigu Horns hf., dótturfélags bankans, um 9 milljörðum króna. Bankinn segir fyrirsjáanlegt að tap verði af hlutabréfum á þriðja ársfjórðungi.
Á sama tímabili í fyrra var hagnaður bankans 9,4 milljarðar króna en 27,2 milljarðar á öllu árinu.
Hagnaður af aflagðri starfsemi var 4,7 milljarðar króna. Þar vegur þyngst salan á Vestia og Icelandic Group sem skilaði 4,1 milljarðs hagnaði.
Hagnaður af reglulegri starfsemi bankans var um 10,7 milljarðar í samanburði við 6,6 milljarða á sama tíma árið 2010. Arðsemi eigin fjár af reglulegri starfsemi bankans er 10,8%.
Virðisrýrnun á útlánasafni til einstaklinga nemur um 9 milljörðum króna. Virðisaukning lánasafns bankans til fyrirtækja nemur um 19 milljörðum króna.
Eigið fé bankans er nú 207,7 milljarðar króna miðað við 184,9 milljarða króna í lok árs 2010. Arðsemi eigin fjár Landsbankans var 24,9% á ársgrundvelli og eiginfjárhlutfall er nú 22,4%, lágmarkskrafa Fjármálaeftirlitsins er 16%.
Hækkun á verðmæti eignarhlutar ríkisins í bankanum umfram vaxtakostnað þess af hlutafjárframlaginu á árinu 2011 er 20,7 milljarðar króna. Frá stofnun bankans hefur hlutur ríkisins hækkað um 28,6 milljarða króna umfram fjármagnskostnað.