Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, segir í tilkynningu að í heild sé arðsemi bankans af kjarnastarfsemi viðunandi. Afkoma bankans sé góð og hafi hagnaður af reglulegri starfsemi bankans aukist sem sé ánægjuefni.
Hagnaður bankans nam 24,4 milljörðum króna á fyrri hluta ársins. Bankinn segir að stærstur hluti hagnaðarins skýrist þó af gengisbreytingum á hlutafé og sölu eigna.
„Við erum að ljúka boðaðri niðurfærslu á húsnæðislánum og öðrum lánum viðskiptavina og endurgreiðsla vaxta til skilvísra viðskiptavina er að hefjast. Jafnframt er fjárhagsleg endurskipulagning fyrirtækja langt komin og við vonumst til að ljúka henni í upphafi næsta árs. Þetta hafa verið okkar meginmarkmið og nú hillir undir að þau náist.
Það skiptir miklu að rekstur Landsbankans gangi vel svo hægt sé að takast á við þau verkefni sem framundan eru í erfiðu umhverfi, m.a. endurreisn íslensks atvinnulífs sem ekki getur beðið lengur. Við teljum okkur á réttri leið í rekstrinum og að bankinn verði vel undir skráningu á hlutabréfamarkað búinn ef stjórnvöld kjósa að fara þá leið," segir Steinþór í tilkynningu bankans.