Hlutabréf franska bankans BNP Paribas hafa rokið upp í dag og nemur hækkunin nú 11,32%. Er hækkunin rakin til ákvörðunar fimm seðlabanka að dæla lánsfé inn á markaði.
Allar helstu hlutabréfavísitölur hafa hækkað í dag og eins olíuverð vegna ákvörðunar seðlabankanna fimm. Í gær lækkaði verð hlutabréfa BNP Paribas eftir að Moody's lækkaði lánshæfiseinkunn bankans.
En þrátt fyrir hækkun á mörkuðum er framkvæmdastjóri Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, Christine Lagarde, uggandi um stöðu mála og segir nauðsynlegt að grípa til róttækra ráða. Segir hún að samstaða verði að nást um aðgerðir, beggja vegna Atlantsála.
Seðlabankarnir fimm: Seðlabanki Evrópu, Englandsbanki, Seðlabanki Japans og Seðlabanki Sviss, munu dæla fé inn á markaðinn svo komið verði í veg fyrir skort á skammtímafjármögnun banka. Evrópskir og bandarískir bankar hafa forðað fé sínu út úr Evrópu á undanförnum mánuðum vegna ótta um skuldastöðu evru-ríkja. Það hefur þýtt skort á lausafé í bankakerfi Evrópu.
Í Lundúnum hefur FTSE 100 hlutabréfavísitalan hækkað um 2,1% og hafa hlutabréf Lloyds Banking Group hækkað um tæp 6%. Í Frankfurt hefur DAX vísitalan hækkað um 3,5% og í París nemur hækkun CAC vísitölunnar 4,4%. Eins hafa helstu hlutabréfavísitölur á Wall Street hækkað.