Miðlarinn, sem sakaður er um að hafa valdið 2 milljarða dala, 232 milljarða króna tapi hjá svissneska bankanum UBS, hafði lagt fimm sinnum meira fé undir í ýmsum viðskiptum í nafni bankans.
Kweku Adoboli, 31 árs, var handtekinn í Lundúnum í síðustu viku og á föstudag var honum birt ákæra fyrir fjársvik og bókhaldsbrot.
Blaðið Sunday Times hefur eftir innanbúðarmönnum hjá UBS, að Adoboli hafi lagt upphæðir, sem samtals námu um 10 milljörðum punda, undir í ýmsum viðskiptum í nafni bankans áður en upp komst um hann.
UBS hafði að mestu undið ofan af þessum fjárfestingum á föstudag. Hins vegar telja kunnugir ljóst að þessar fjárhæðir veki alvarlegar spurningar um innra eftirlit bankans.