Eignir Kaupþings jukust um tæplega 100 milljarða króna eða um rúm 12% á fyrstu sex mánuðum ársins. Handbært fé Kaupþings stóð í 319 milljörðum og jókst um 88 milljarða í lok júní, samkvæmt uppfærðri kröfuhafaskýrslu.
Sé leiðrétt fyrir áhrifum vegna 5,5% gengislækkunar krónunnar á tímabilinu jókst verðmat eigna Kaupþings um 48 milljarða króna á tímabilinu. Óveðsettar eignir bankans eru metnar á 888 milljarða króna. Þetta kemur fram í nýjum fjárhagsupplýsingum í skýrslu fyrir kröfuhafa Kaupþings.
Mesta aukningin var í flokki lausafjármuna. Handbært fé Kaupþings stóð í 319 milljörðum króna í lok árshelmingsins og jókst um 88 milljarða króna frá upphafi árs, einkum vegna afborgana af lánasafni Kaupþings. Skuldabréfasafn Kaupþings stóð í 27 milljörðum króna í lok tímabilsins og jókst um 20 milljarða króna á tímabilinu. Þá jókst verðmæti eignarhlutar Kaupþings í dótturfélögum sem stóð í 134 milljörðum í lok tímabilsins um 5 milljarða króna. Aðrir eignaflokkar, svo sem lán, afleiður og hlutabréfastöður drógust saman á fyrstu sex mánuðum ársins.
Mesta raunhækkun einstakra eignaflokka var á virði lánasafns Kaupþings sem jókst um 12,5 milljarða króna á tímabilinu, samkvæmt upplýsingum frá Kaupþingi.
„Frá upphafi hefur skilanefnd fylgt skipulögðu ferli við meðferð og ráðstöfun eigna. Kaupþing hefur gert ítarlega greiningu á öllum lánastöðum og mótað áætlun um endurheimtur með það að markmiði að hámarka virði þeirra. Kaupþing er ekki markvisst að selja eignir og hefur staðfastlega hafnað öllum tilboðum um sölu á hrakvirði,“ segir í tilkynningu.
Rekstrarkostnaðurinn 3,3 milljarðar króna
Heildarrekstrarkostnaður bankans á fyrri helmingi ársins 2011 var 3,3 milljarðar króna sem er 0,30% af nafnvirði heildareigna sem námu 2.175 milljörðum króna við lok fyrri helmings 2011.
Tæplega helmingur kostnaðarins, eða um 47%, er vegna erlendrar aðkeyptrar sérfræðiráðgjafar sem nam rúmum 1,5 milljarði króna. Sá kostnaður er að mestu tilkominn vegna ýmissar fjárhagsráðgjafar, kostnaðar við uppgjör á afleiðusafni Kaupþings og kostnaðar í tengslum við aðgerðir og rannsóknarvinnu vegna endurheimtuaðgerða erlendis. Aðgerðir og vinna við hið síðastnefnda hefur staðið yfir frá haustinu 2008 og krafist mikillar samvinnu við alþjóðleg lögfræði- og endurskoðunarfyriræki, þetta er kostnaður sem skilanefnd stefnir á að fáist til baka í gegnum dómsmál. Þá renna 188 milljónir króna í skattgreiðslur til ríkissjóðs, eða sem samsvarar 6% af heildarkostnaði.
28.167 kröfum var lýst í bú Kaupþings fyrir kröfulýsingarfrest 30. desember 2009 og nam heildarfjárhæð þeirra 7.316 milljörðum króna. Slitastjórn Kaupþings náði yfirlýstu markmiði sínu að ljúka yfirferð og afstöðutöku til allra krafna sem lýst var á hendur bankanum fyrir lok árs 2010. Nú þegar hafa í heild kröfur að upphæð 2.606 milljarða króna verið dregnar til baka af kröfuhöfum eða þeim endanlega hafnað af slitastjórn án mótmæla, samkvæmt tilkynningu.
Á árinu 2011 hafa útistandandi forgangskröfur lækkað um 317 milljarða króna og útistandandi almennar kröfur lækkað um 307 milljarða króna. Ástæður þessarar lækkunar má rekja til úrlausn ágreiningsmála, afturkallana krafna frá kröfuhöfum og hækkun á endanlega höfnuðum kröfum slitastjórnar.
Kröfur að upphæð 2.936 milljarðar króna hafa verið samþykktar af slitastjórn og þar af eru 2.012 milljarðar króna endanlega samþykktar.
Kaupþing vinnur ásamt ráðgjöfum sínum og í nánu samráði við kröfuhafaráð áfram að undirbúningi að mögulegri tillögu að nauðasamningum og væntir þess að núverandi slitameðferð geti lokið á frekar skömmum tíma þótt búast megi við að lausn einstakra deilumála taki lengri tíma.