Íhuga þjóðaratkvæði um evruna

Niðurskurðaráætlunum grískra stjórnvalda hefur verið harðlega mótmælt í Grikklandi.
Niðurskurðaráætlunum grískra stjórnvalda hefur verið harðlega mótmælt í Grikklandi. Reuters

Grísk stjórnvöld eru sögð íhuga að láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort landið eigi að vera áfram á evrusvæðinu. Er George Papandreou, forsætisráðherra, sagður telja að slík atkvæðagreiðsla gæti styrkt stjórnvöld í baráttunni gegn skuldakreppunni.

Gríska blaðið Kathimerini hefur þetta eftir ónafngreindum heimildarmönnum. Segir blaðið á vef sínum, að verði niðurstaða slíkrar atkvæðagreiðslu sú að landið eigi að vera áfram á evrusvæðinu sé hægt að túlka það sem endurnýjað umboð til ríkisstjórnarinnar um að framfylgja ströngum niðurskurðaráætlunum. Verði tillagan felld gæti það leitt til þess að Grikkland segði sig úr Efnahags- og myntbandalagi Evrópu og hætti að nota evru. 

Erlendir lánardrottnar Grikklands krefjast þess að stjórnvöld framfylgi áætlunum um að selja ríkiseignir og skeri meira niður í ríkisfjármálum. Almenningur hefur hins vegar mótmælt sparnaðaráformum stjórnvalda. 

Blaðið segir, að þingsályktunartillaga um þjóðaratkvæðagreiðslu verði lögð fyrir gríska þingið og rædd þar á næstu dögum. Papandreou hefur áður vísað hugmyndum um slíka þjóðaratkvæðagreiðslu á bug en er nú sagður hafa skipt um skoðun.

Gríska ríkisstjórnin er sögð klofin í afstöðu til hugsanlegrar þjóðaratkvæðagreiðslu. Sumir ráðherrar hafa krafist nýrra þingkosninga og þjóðaratkvæðagreiðslu um evruna en aðrir vilja hvorugt.   

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK