Grísk stjórnvöld eru sögð íhuga að láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort landið eigi að vera áfram á evrusvæðinu. Er George Papandreou, forsætisráðherra, sagður telja að slík atkvæðagreiðsla gæti styrkt stjórnvöld í baráttunni gegn skuldakreppunni.
Gríska blaðið Kathimerini hefur þetta eftir ónafngreindum heimildarmönnum. Segir blaðið á vef sínum, að verði niðurstaða slíkrar atkvæðagreiðslu sú að landið eigi að vera áfram á evrusvæðinu sé hægt að túlka það sem endurnýjað umboð til ríkisstjórnarinnar um að framfylgja ströngum niðurskurðaráætlunum. Verði tillagan felld gæti það leitt til þess að Grikkland segði sig úr Efnahags- og myntbandalagi Evrópu og hætti að nota evru.
Erlendir lánardrottnar Grikklands krefjast þess að stjórnvöld framfylgi áætlunum um að selja ríkiseignir og skeri meira niður í ríkisfjármálum. Almenningur hefur hins vegar mótmælt sparnaðaráformum stjórnvalda.
Blaðið segir, að þingsályktunartillaga um þjóðaratkvæðagreiðslu verði lögð fyrir gríska þingið og rædd þar á næstu dögum. Papandreou hefur áður vísað hugmyndum um slíka þjóðaratkvæðagreiðslu á bug en er nú sagður hafa skipt um skoðun.
Gríska ríkisstjórnin er sögð klofin í afstöðu til hugsanlegrar þjóðaratkvæðagreiðslu. Sumir ráðherrar hafa krafist nýrra þingkosninga og þjóðaratkvæðagreiðslu um evruna en aðrir vilja hvorugt.