Samkomulag kemur Tchenguiz vel

Robert og Vincent Tchenguiz.
Robert og Vincent Tchenguiz.

Samkomulag Vincent Tchenguiz við slita- og skilanefnd Kaupþing kemur til með að auðvelda Tchenguiz að endurfjármagna skuldir félaga í hans eigu en samkvæmt frétt breska dagblaðinu Independent skulda félög í hans eigu 2 milljarða punda, tæplega 370 milljarða króna.

Í breska dagblaðinu Guaridan kemur fram að samkomulagið við Kaupþing geri það að verkum að staða Tchenguiz batni mjög þar sem deilan við Kaupþing hafi haft mikil áhrif á hlut hans í fjölmörgum fyrirtækjum. „Vincent brosir breitt," hefur Guardian eftir heimildarmanni en samkomulagið auðveldar honum að semja við fleiri lánardrottna fasteignafélags hans.

Jafnfram vekur samkomulagið spurningar um hversu sterk rök séu á bak við rannsókn Serious Fraud Office, bresku efnahagsbrotalögreglunnar, á hendur Tchenguiz í tengslum við rannsóknina á Kaupþingi, segir í frétt Independent.

Fyrr á árinu var upplýst um rannsókn Serious Fraud Office (SFO) á lánveitingum Kaupþings og að rannsóknin beindist einkum að bróður Vincent, Robert Tchenguiz. Voru þeir báðir yfirheyrðir af SFO í mars sl.

Ástæða þess að Vincent var líka færður til yfirheyrslu, var sú að þegar harðna tók á dalnum hjá Robert og veðköllin hrönnuðust upp, hljóp Vincent undir bagga með bróður sínum og lánaði hluta eigna sinna til að bæta tryggingastöðu Roberts gagnvart bankanum, samkvæmt frétt Morgunblaðsins frá því í mars.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins frá þeim tíma rannsakar SFO fyrst og fremst að því virðist nánast takmarkalausan aðgang Roberts Tchenguiz að lánsfé hjá Kaupþingi. Þegar aðrir bankar gerðu veðköll hjá honum undir lok árs 2007 og á árinu 2008 kom Kaupþing Robert jafnan til aðstoðar með aukinni fyrirgreiðslu. Allar lánveitingar Kaupþings til Roberts Tchenguiz voru gerðar í gegnum móðurfélagið á Íslandi. En viðskiptasamband Roberts við bankann hófst hins vegar við Kaupthing Singer&Friedlander árið 2004.

Í tilkynningu frá skila- og slitanefnd Kaupþings frá því í gær kemur fram að fallið hafi verið frá öllum kröfum Tchenguiz Family Trust á hendur Kaupþingi í kjölfar samkomulags milli aðila. Hins vegar er snýr samkomulagið einvörðungu að málaferlum Vicents en ekki bróður hans.

Guardian segir að rannsókn SFO standi enn yfir þrátt fyrir að engar ákærur hafi verið lagðar fram og að allir þeir sem hafa verið yfirheyrðir í málinu neiti að hafa brotið af sér.

Nokkrum mánuðum fyrir fall Kaupþings í október 2008 var hlutur Tchenguiz í eignarhaldsfélögum metinn á yfir 220 milljónir punda og var hluturinn settur að veði til þess að koma í veg fyrir veðkall Kaupþings á 1,8 milljarða punda láni Kaupþings til  Roberts Tchenguiz, sem var stærsti lántakandinn hjá Kaupþingi fyrir fall bankans.

Öll helstu dagblöð í Bretlandi hafa í gær og í dag fjallað um samkomulag Tchenguiz og Kaupþings sem og fjöldi annarra fjölmiðla í öðrum löndum, svo sem Wall Street Journal.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK