Söluæði rann á fjárfesta

Erfiður dagur að baki í kauphöllinni í New York
Erfiður dagur að baki í kauphöllinni í New York Reuters

Söluæði rann á fjárfesta í Bandaríkjunum í dag í kjölfar þess að bankastjórn Seðlabanka Bandaríkjanna lýsti yfir efasemdum um heilbrigði bandarísks efnahagslífs. Á Wall Street lækkuðu helstu hlutabréfavísitölur líkt og annars staðar í heiminum í dag.

Dow Jones-hlutabréfavísitalan lækkaði um 390,03 stig eða 3,51% og er lokagildi hennar 10.734,81 stig. Dow Jones er nú 16% lægri heldur en hæsta gildi hennar á árinu, 12.810,54 stig og nálgast hratt lægsta gildi ársins 10.719,94 stig frá 10. ágúst sl. S&P 500-vísitalan lækkaði um 3,18% og Nasdaq lækkaði um 3,25%.

Það var fátt ef ekkert sem gladdi fjárfesta í dag. Ekki var nóg með að forsvarsmenn Seðlabanka Bandaríkjanna lýstu yfir áhyggjum sínum af ástandi mála heldur bætti Christine Lagarde, framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, um betur og sagði að ástandið í efnahagsmálum væri komið á hættulegt stig. Fyrr í dag sagði forstjóri Alþjóðabankans, Robert Zoellick, að efnahagur heimsins væri í hættu. 

Í Evrópu lækkaði FTSE-vísitalan í Lundúnum um 4,7%, CAC í París um 5,25% og DAX í Frankfurt um 5%. Ekkert félag hækkaði í þessum þremur stærstu kauphöllum Evrópu í dag. Lækkun FTSE-vísitölunnar í dag er sú mesta síðan 2. mars 2009 er hún lækkaði á einum degi um 5,3%.

Verð á hráolíu lækkaði einnig hressilega enda ljóst að eftirspurn mun minnka eftir hrávöru ef samdrátturinn verður verulegur í heiminum. Verð á Brent-Norðursjávarolíu lækkaði um 3,08% eða 3,42 Bandaríkjadali tunnan og er nú í kvöld skráð á 107,62 dali tunnan. Um tíma var lækkunin enn meiri en heldur dró úr henni í kvöld.

Á NYMEX-markaðnum í New York lækkaði verð á West Texas-hráolíu um 6,51% eða 5,59 dali og er tunnan nú seld á 80,35 dali, samkvæmt frétt Bloomberg.

Lagarde sagði á fundi með blaðamönnum í dag að staðan væri verri í dag en hún var fyrir þremur árum, þ.e. erfiðara væri að snúa aftur á beinu brautina. Hvatti hún leiðtoga heimsins til þess að grípa strax til aðgerða hvað varðar skuldir heimila og endurbóta á opinbera geiranum. Samkvæmt BBC sagði hún það lykilatriði að bankarnir yrðu styrktir því lánveitingar á alþjóðlegum mörkuðum væru nauðsynlegar til að auka vöxt hagkerfa heimsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK