Færeyska lögþingið samþykkti í dag að afskrifa 6 milljónir danskra króna af því hlutafé, sem færeyska ríkið á í Smyril Line en það var forsenda fyrir því að nýtt hlutafé fáist í félagið. Færeyska útvarpið segir, að ella hefði Smyril Line, sem rekur ferjuna Norrænu, verið tekið til gjaldþrotaskipta.
Lögþingið samþykkti með 22 atkvæðum gegn 2 frumvarp ráðherrans Johans Dahls um að landsstjórnin afskrifaði hlutaféð. Það þýðir að landsstjórnin á ekki lengur ráðandi hlut í Smyril Line en hún hefur verið skráð fyrir 24,6% hlut.
Í frumvarpinu kemur fram, að sögn færeyska útvarpsins, að tvö ný félög hafi áhuga á að leggja Smyril Line til 40 milljónir danskra króna, 860 milljónir íslenskra króna, í nýju hlutafé. Fram hafi komið í umræðum á þinginu að einn fjárfestir ætli að leggja félaginu til 25 milljónir króna, Framtaksgrunnur Færeyja, sem er einskonar opinber hlutabréfasjóður, mun leggja félaginu til 10 milljónir en sjóðurinn er fyrir stærsti hluthafinn í Smyril Line með 33,6% hlut. Þá mun tryggingafélagið TF Holding leggja Smyril Line til 5 milljónir en TF á 20,7% hlut.
Dahl upplýsti á þinginu, að tækist ekki að finna lausn á fjárhagserfiðleikum Smyril Line nú verði ekki hægt að greiða afborganir af lánum, sem eru á gjalddaga 7. október. Það myndi þýða að félagið yrði tekið til gjaldþrotaskipta.
Smyril Line hefur átt við rekstarerfiðleika að stríða eftir að núverandi Norræna var tekin í notkun árið 2003. Hefur færeyski landsstjóðurinn oft orðið að hlaupa undir bagga með félaginu.