Bankakerfið ætti að þola skuldalækkun

Gylfi Magnússon, prófessor við Háskóla Íslands.
Gylfi Magnússon, prófessor við Háskóla Íslands. mbl.is

Gylfi Magnússon prófessor segir að þó að evrópskar fjármálastofnanir þurfi að taka á sig miklar afskriftir skulda vegna Grikklands ætti bankakerfið að þola það. Einstakir bankar kunni þó að lenda í vandræðum sem kalli á stuðning ríkissjóða einstakra landa.

Evrópusambandið og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn vinna núna að því að ná samkomulagi um björgunaraðgerðir sem miða að því að taka á skuldavanda evrusvæðisins. Aðgerðirnar eru sagðar gera ráð fyrir að um helmingur skulda Grikkja verði afskrifaður.

„Það eru allir sammála um að það er ekki hægt að stunga höfðinu í sandinn,“ sagði Gylfi þegar hann var spurður hvort svona víðtækar aðgerðir væru óhjákvæmilegar. Hann segir flest benda til að menn séu að reyna að koma sér saman um nauðsynlegar aðgerðir. Það hafi tekið langan tíma að skapa pólitíska samstöðu um aðgerðir og ekki út séð um hvernig pakkinn komi til með að líta út á endanum.

Gylfi segir búið að liggja fyrir í nokkurn tíma að það verði að afskrifa skuldir Grikkja. „Tölurnar fyrir Grikkland eru svo slæmar og mun verri en hjá nokkru öðru landi í Evrópusambandinu. Það er sama hvort litið er á fjárlagahalla, skuldir eða viðskiptahalla. Það var bara um tvennt að ræða, annað hvort að Grikkir fengju stóran hluta af þessu fellt niður eða einhverjir aðrir hefðu tekið þetta á sig og það var auðvitað ekki inn í myndinni.“

Gylfi sagði að niðurfelling á skuldum Grikklands þýddi að þeir sem ættu kröfur á Grikki þyrftu að afskrifa skuldir. Þetta væru hinar ýmsu fjármálastofnanir, þar á meðal Seðlabanki Evrópu. „Tapið lendir fyrst á þeim, en auðvitað getur það leitt til þess að einhverjar stofnanir þurfi að leita á náðir hins opinbera um stuðning til að þola höggið. Þetta getur því lent á hinum ýmsu ríkissjóðum Evrópu og jafnvel utan Evrópu. Það verður samt að hafa í huga að þrátt fyrir allt er Grikkland lítið land. Þetta ætti því ekki að valda vandræðum nema í einstaka tilfellum. Þetta ætti ekki að valda kerfisbundinni áhættu fyrir evrópska bankakerfið.“

Gylfi segir að á næstu dögum verði sjálfsagt tekist á um útfærslu á skuldalækkun Grikkja. Það þurfi að ræða hvernig skuldirnar séu færðar niður. Það sé hægt að fella niður skuldir með því að lækka höfuðstól talsvert, en líka með því að lána með mjög hagstæðum kjörum til lengri tíma. Björgunarpakkinn geti falið í sér blöndu af þessum tveimur leiðum.

Fleiri ríki eiga í erfiðleikum í Evrópu eins og Spánn, Portúgal, Ítalía, Írland og Belgía. Gylfi segir sum þessara ríkja berjist við miklar skuldir, viðskiptahalla og fjárlagahalla. „Staðan hjá þessum ríkjum er þrátt fyrir allt mun skárri en Grikklands. Ég á því von á því að menn muni draga skýrar víglínur milli Grikklands og hinna ríkjanna og lýsa því þá yfir að efnahagslegur þróttur ESB og evrópski seðlabankinn og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn muni standa á bak við hin löndin. Síðan vona menn að það dugi til að smátt og smátt færist ró yfir markaði og þessi lönd geti unnið sig út úr vandanum með tíð og tíma.“

Gylfi segir ljóst að Grikkir verði að gangast undir ströng skilyrði fyrir þessum björgunaraðgerðum. Þetta muni væntanlega ekki bara snúa að skammtímaaðgerðum í ríkisfjármálum heldur einnig aðgerðum til langs tíma eins og breytingar á lífeyriskerfi og breytingar sem muni stuðla að samkeppnishæfni Grikkja. „Það er augljóst að menn fella ekki niður skuldir og leyfa mönnum síðan að halda áfram að safna nýjum skuldum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK